Wednesday, August 31, 2005

Færsla #5

Ragga:
Annasamur dagur að baki. Hittumst allar þrjár yfir hádegisverði í Lyngby center og komumst að þeirri niðurstöðu að það væri enginn maður með mönnum hér í landi nema hann væri með sílíkon. Við ákváðum að vera ekkert að tvínóna við hlutina og hoppuðum bara beint út í djúpu laugina. Sigga og Nanna ákváðu að lappa aðeins upp á smettið og fengu sér fyllingu í varir. Þær voru ægilega heppnar og fengu þetta á einhverjum spes díl, svakalega ódýrt. Greyin eru stokkbólgin og bera sig frekar illa. Þær eru þó nokkuð ánægðar með afraksturinn þó að það sé kannski lítið að marka núna út af bólgunni.





Ég átti hins vegar erfitt með að gera upp við mig hvort ég ætti að laga rass eða brullur. Hvernig líst ykkur á?

Tuesday, August 30, 2005

Færsla #4

Sigga:

Það hefur gengið vel að rifja upp dönskuna síðustu daga. Nanna auðvitað orðinn meistari danska koddatalsins og við Ragnhildur duglegar að fitja upp á skemmtilegum samræðum á barnum, í búðinni og síðast en ekki síst í umræðutímum í skólanum. Við mættum galvaskar í umræðutíma í Operatios Analyse í gær og gekk vel að ræða hinar ýmsu hliðar línulegrar bestunar við Danina.
Annars hefur verið rosagott veður undanfarna daga og strákurinn hér að ofan, Jesper, var bara ber að ofan í Regulerings Teknik - tíma í morgun. Tímarnir eru ósköp notalegir. Við erum einu stelpurnar þannig að það er komið fram við okkur eins og drottningar.

Við erum búnar að skrá okkur í blakliðið og hér má sjá mynd af liðinu síðan í fyrra. Liðið síðan í fyrra heldur sér að mestu.


Stelpurnar eru mjög öflugar og þykja með þeim betri meðal dönsku háskólanna. Bikarinn fór að vísu í fyrra til Århus en við vonum að í ár verði breyting.

Annars er lífið hérna úti fremur dýrt. Auðvitað í fyrsta skiptið sem við snótur stöndum á eigin fótum og því mikið um ófyrirsjáanlegan kostnað. Því erum við að spá í að fá okkur vinnu til þess að endar nái saman. Það liggur auðvitað beinast við að fara í módelstörfin og planið er að reyna að komast á samning hjá Jysk (Rúmfatalagernum).


Færsla #3

Nanna:

Ég átti fávitadag í dag. Úff! Fór í fyrsta sinn í geoteknik, sem er svona jarðtæknikúrs og mér leist bara asssskoti vel á! Danskan var svosum ekkert að angra mig það mikið, það er þegar ég komst yfir sjokkið, reyndi bara að hafa eyrun opin og hlusta vel. Ég á það samt til að missa einbeitningu.. fer yfirleitt að hugsa um föt eða djamm.... eða Kris. Allavega. Fyrstu 2 klukkutímarnir eru fyrirlestur og síðan tekur við verkefnasession sem tekur annað sett af klukkutímum. Ég bara skildi ekki neitt. Ekkert. Jú fyrsta liðinn í fyrra dæminu og eftir það tók bara svartamyrkur við í mínum kolli. Mér varð óglatt ég sver það! Og það virkaði enginn annar í vandræðum, niiii hvurs vegna? "Snýst um að skilja skilgreiningarnar. Ef þú gerir það ekki...." Já mikið rétt, þetta sagði Gunnar Baggi kennari við mig. Hann talar annars eins og Ófeigur í spaugstofunni. Kannski var sá gaur bara Dani eftir allt saman..? Jæja.. Allavega, 2 gaukar í bekknum sáu aumur á mér og buðu mér að vera með sér í verkefnahóp (ég var ekki farin að skæla sko....) sem er súperfínt! En þeir eru algerir snillingar sem lætur mér líða eins og amöbu. Þetta var svolítið fyndið samt. Einn gaurinn var að útskýra eitthvað fyrir mér (því ég starði bara á blaðið og skrifaði formúlurnar aftur og aftur) og ég alveg "jááááá nú skil ég!" Stráksi brosti, ofsa sáttur... Og svo hélt ég áfram að stara á blaðið. Því ég skildi ekki hvað hann var að meina. Tók síðan smá brainstorm í lestinni á leið heim og ég held ég sé að fatta skilgreiningarnar sem útskýra aðferðirnar. Ekki svo erfitt. En svei ef ég lendi í þessu aftur! Annars er ég búin að vera ofsalega kvefuð undanfarið en nú held ég það sé loks að skána. Er hægt að snýta heila? Það myndi allavega útskýra ýmislegt. Lokaorð? Það er gaman að ferðast í lest! Steig samt í eitthvað gú á leiðinni í skólann um daginn. Það var ekkert spes...

Monday, August 29, 2005

Færsla #2

Ragga:
Sigga lét djammara sumarsins á desktopið og við fórum í hláturskast þegar ég kveikti á tölvunni í miðjum tíma. Panikaði nett yfir því að fólki fyndist ég hallærisleg að hafa mynd af sveittri, miðaldra skutlu. Eða það sem verra væri, mömmu minni á djamminu.

Hittum Nönnu loksins í dag og voru það fagnaðarfundir. Hún toppar okkur báðar og er í heilum fjórum kúrsum á dönsku. Að auki á pían danskan kæró og hefur því töluvert forskot í dönskunni.

Ég og Sigga fórum í tvo nýja kúrsa í dag, iðnaðartölfræði (IT) og framleiðslugreiningu (FG). IT lofaði góðu framan af, eða alveg þangað til við fórum í verklegt. Þurfum að læra á nýtt forrit sem virðist við fyrstu sýn drepleiðinlegt. Við reynum samt auðvitað að vera léttar í lund.

FG er kenndur á dönsku og var það heljarinnar sjokk. Skildum voða lítið en vorum ekki alveg að meika að koma með: “Kan du venligst snakke lidt langsamer.” Sátum bara með sitthvort súkkulaðistykkið og gláptum á kallinn, svona eins og hann væri fílamaðurinn. Ekki mjög skemmtilegur fílamaður þó, því Sigga sofnaði stuttu seinna. Þetta reddast pottþétt því danskan verður ábyggilega fljót að koma og svo á þessi kúrs ekki að vera erfiður.

Við erum annars ofsalega þreyttar í dag og það má segja að það sé mikið búið að ganga á í hjónarúminu hans Óla (einkar kurteis og viðkunnalegur piltur sem leyfir mér og Siggu að nota rúmið sitt). Í fyrrinótt hrökk ég upp við að Sigga var að berja, og þá meina ég berja, í rúmið. Krúttið var þá steinsofandi að tuska til þjóf sem stal veskinu hennar. Ég held það sé helvítis álag á stelpunni.

Í gærkvöldi gekk okkur illa að sofna og sváfum frekar laust. Vorum alltaf að bylta okkur sem er ekki sniðugt því rúmið hefur einkenni vatnsrúms að því leyti að þegar ein snýr sér við þá hristist hin. Stemmning.

Sunday, August 28, 2005

Færsla #1

Við lellurnar eru komnar til Danmerkur til þess að vera næsta árið. Okkur heilsast ágætlega ef frá er skilið að Sigga er komin með bólu á augað. Hún á erfitt með að blikka og drepur það allar vonir um að hún nái að kynnast fleiru fólki á næstu dögum. Hins vegar erum við búnar að kynnast nokkrum. Í gær tókum við könnun um mataræði Dana og hittum hressa píu. Dásamleg afþreying og eilítið skemmtilegri en bíómyndin Fantastic Four sem Gilli Ammríkufari mælti svo með. Við fundum ægilega huggulegan og ódýran ítalskan veitingastað í gær sem við hyggjumst fara með alla okkar gesti á. Það má því með sanni segja að gærdagurinn hafi verið viðburðaríkur og uppfullur af spennandi ævintýrum.

Við heimsóttum mollið í Lyngby sem er afar flókið. Tilgangurinn var að kaupa díóður á hjólin því annars eigum við hættu á handtöku. Handtakan er enn yfirvofandi því engar díóður fundum við því við gleymdum okkur við eplaát og horfðum á búðina lokast þar sem við sátum á bekk eins og rónar.

Við erum duglegar að efla vínmenninguna hér. Í gær fórum við á barinn og pöntuðum hvítvínsflösku. Við fengum skrýtið augnaráð og endaði það á því að við þurftum sjálfar að opna flöskuna því að Danirnir eru greinilega vanari bjórnum.

Það má því segja að þessir fyrstu dagar í Danmörku séu góður endir á viðburðaríku sumri.


Konan hér að ofan hefur verið valin djammari sumarsins. Þótt hún búi í nágrenni Siggu hittum við hana á Grundarfirði þar sem hún lék á als oddi og átti í raun pleisið þegar hún tók olnbogadansinn. Vonandi hittum við hana aftur.